2.2
Öryggi, heilsa og vinnuvernd - Sameiginleg ábyrgð
Flugvöllur er að mörgu leiti ólíkur öðrum vinnustöðum. Þar gilda ríkar aðgangsreglur og mikilvægt að hafa í huga að hegðun okkar getur haft áhrif á öryggi flugvallarins. Dæmi um það er hurð sem gleymist að loka getur opnað fyrir aðgengi óviðkomandi inn á lokað svæði eða hlutur sem er skilinn eftir á glámbekk getur farþegi notað til að ógna öryggi farþega og viðskiptavina. Jafnframt getur frágangur og uppröðun í vinnurými haft áhrif á vinnuvernd starfsmanna og öryggi annarra.
Öryggi, heilsa og vinnuvernd er sameiginleg ábyrgð allra aðila, rekstraraðila jafnt sem Isavia þar sem allir þurfa að vera samstíga. Isavia leggur því áherslu á öryggi og öryggisvitund alls starfsfólks. Allir starfsmenn sem fá aðgangsheimild fá fræðslu í flugverndarreglum, vinnuvernd og öryggisvitund þar sem farið er yfir þær reglur sem gilda fyrir starfsfólk sem starfar á flugvelli.
2.2.1
Áhættumat starfa
Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (lög nr. 46/1980) ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumati, áætlun um forvarnir og aðgerðir til að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum. Endurskoða skal áætlun um öryggi og heilbrigði ef breytingar verða á vinnuaðstæðum, vinnutilhögun eða framleiðsluaðferðum. Einnig þegar vinnuslys eða alvarleg óhöpp verða eða ef upp koma atvinnutengdir sjúkdómar.
Tengiliður Isavia getur óskað eftir að rekstraraðili framvísi áhættumati sínu hvenær sem þess er óskað.
2.2.2
Meðferð oddhvassra hluta
Farþegum sem fara um flugstöðina er óheimilt að hafa meðferðis oddhvassa og beitta hluti, svo sem þá sem notaðir eru í veitingarekstri. Því er mikilvægt að tryggja að farþegar hafi ekki aðgang að samskonar hlutum sem eru í notkun hjá veitingastöðum á haftasvæði flugverndar.
Við upphaf reksturs þurfa fyrirtæki í veitingarekstri að fylla út eyðublað þar sem kerfi um meðferð og notkun oddhvassra og beittra hluta er lýst. Eftirfarandi upplýsingar þurfa að koma fram:
• fjöldi oddhvassra og beittra hluta
• upplýsingar um það hvernig oddhvassir og beittir hlutir eru merktir/auðkenndir
• lýsing á innra eftirliti með oddhvössum og beittum hlutum
• lýsing á því hvernig þjálfun/endurmenntun starfsfólks varðandi meðferð og notkun oddhvassra og beittra hluta er háttað
• upplýsingar um tengilið fyrirtækis
Lýsingu á kerfi (eyðublaði) skal skila til Flugverndarstjóra Keflavíkurflugvallar við upphaf reksturs (flugvernd@isavia.is). Einnig skal upplýsa viðskiptastjóra um að kerfi hafi verið skilað. Allar breytingar á kerfi skal einnig tilkynna, t.d. við förgun. Við endurnýjun má þó taka hlut út og setja nýjan inn án þess að tilkynna ef nýi hluturinn er að öllu leiti eins og sá sem tekinn er út. Oddhvössum og beittum hlutum skal farga á öruggan hátt, t.d. í pressugám í ruslageymslu.
2.2.3
Efnanotkun og geymsla
Öll varasöm efni skal geyma á afmörkuðum stað og í læstum skáp. Öll efni sem bera varúðarmerki skulu vera skráð hjá umhverfisdeild Isavia. (umhverfi@isavia.is). Upplýsingar um efni og í hvaða tilgangi nota á efni, öryggisblöð og aðrar upplýsingar skulu fylgja skráningu. Öryggisblöð fyrir varasöm efni skulu vera aðgengileg öllum starfsmönnum. Öryggisblöð eiga að liggja frammi fyrir alla starfsmenn sem nálgast þurfa efnin á vinnustaðnum á því tungumáli sem þeir skilja. Þeir sem nota eða vinna með efnin þurfa að lesa öryggisblöðin.
Varasöm efni mega alls ekki berast í niðurföll. Mikilvægt er að geyma efni sem mega ekki fara í niðurföll í lekaheldu umhverfi (t.d. í lekabyttum) og hafa búnað tiltækan (uppsogssett) til að koma í veg fyrir leka í niðurfall. Ef mengunaróhapp verður skal notast við uppsogsefni/tuskur og koma þeim svo örugglega í spillefnakar svo það fari rétta leið í förgun.
Öll slík atvik skal tilkynna hér.
2.2.4
Meindýravarnir
Isavia er með eigin þjónustusamning við meindýraeyði sem nær til allra svæða á flugvelli. Hafa skal samband við APOC s:425 6200 apoc@kefairport.is fyrir nánari upplýsingar.
2.2.5
Tilkynning atvika
Samkvæmt vinnuverndarlögum ber rekstraraðila að tilkynna strax til Vinnueftirlitsins:
- Öll vinnuslys þar sem starfsmaður verður óvinnufær eða lætur lífið
- Atvinnusjúkdóma eða atvinnutengda sjúkdóma
- Ef rekstraraðili eða starfsmenn hans hafi orðið fyrir öðrum skaðlegum áhrifum vegna starfa sinna.
Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á:
https://www.vinnueftirlit.is/vinnuvernd/oryggi/vinnuslys/
Rekstraraðila ber að tilkynna öll atvik, s.s. tjón, vinnuslys og næstum því slys til Isavia. Upplýsingar um tilkynningahnapp:
https://www.isavia.is/fyrirtaekid/vidskiptavinir/keflavikurflugvollur/adgangur-og-oryggi/oryggismal/oryggistilkynningar--fod
Einnig skal upplýsa tengilið Isavia eins fljótt og mögulegt er.